Um okkur

Heil og sæl!

IMG_2570

Ég heiti Þóra Margrét Þorgeirsdóttir, er gift Ögmundi Hrafni og saman eigum við þrjú börn fædd 2008, 2013 og 2014. Við höfum búið í Sviss síðan 2013 en við munum flytja heim til Íslands sumarið 2019.

Haustið 2016 vökunuðum við til aukinnar vitundar um ábyrgð okkar sem neytendur þegar kemur að loftslagsmálum. Við litum svo á að heimili okkar fimm manna fjölskyldu væri hluti af vandamálinu um aukna hlýnun jarðar og að við bærum þ.a.l. skyldu til að taka þátt í að a.m.k. takmarka það. Við höfðum verið að flokka ruslið okkar í um 5 ár en fundum fyrir ákveðinni löngun til að taka umhverfisvænni skref í neyslu- og sorpmálum okkar.

Á þessum tíma sáum við hins vegar ekki alveg fyrir okkur hver þau skref gætu orðið. Síðar um haustið birtist lausnin okkur, sem betur fer, þegar við heyrðum af „Zero Waste”-lífsstíl fransk/bandarískrar konu að nafni Bea Johnson.  Neysluvenjur Beu og fjölskyldu hennar eru svo sannarlega til fyrirmyndar;  heildarmagn af öllu óendurvinnanlegu sorpi þessarar fjögurra manna fjölskyldu yfir eitt ár fyllir eina eins lítra krukku!

Hvernig í ósköpunum fóru þau að þessu? Það er auðvelt að kynna sér það því Bea hefur gefið út bækur um efnið, hún heldur úti heimasíðu og hefur haldið fjölda fyrirlestra um allan heim m.a. TED fyrirlestra sem birtir eru á netinu. Ég setti smá umfjöllun um Beu og hennar pælingar hér.

Þegar ég kynntist fyrst „Zero Waste” þá man ég að mér fannst ég vera svo laaaangt frá því að gera sumt af því sem Bea gerði; eins og að fara með fjölnota ílát í fiskborðið eða kaupa vörur með áfyllingu í eigin umbúðir. Glætan! En í heildina litið greip þessi nálgun mig alveg. Hún var svo fullkomlega rökrétt, þ.e. að hugsa ekki bara um að flokka  – heldur að stefna að því MINNKA ALLT heimilissorp, bæði það sem er flokkað/endurvinnanlegt og  það sem fer í landfyllingu/brennslu.

IMG_8350
Eftir þessa uppljómun urðum við sífellt meðvitaðri um hvað við gætum gert til að minnka sorpið okkar og alltaf langaði okkur til að gera betur og betur. Að þremur mánuðum liðnum  (í Meistaramánuðinum febrúar 2017, þegar við tókum þetta verkefni með markvissum hætti) vorum við farin að gera hluti sem ég hélt við myndum sko seint eða aldrei gera; m.a. að taka fjölnota ílát að heiman í fiskborðið og kaupa vörur í áfyllingu!

Í stuttu máli felst lykillinn að minna heimilissorpi í því að breyta kaup- og neytendahegðun sinni, þ.e. að KAUPA MINNA og KAUPA VISTVÆNT. Allt sem keypt er verður jú að einhvers konar úrgangi eða sorpi, fyrr eða síðar.

Hvernig höfum við breytt kaup- og neytendahegðun okkar? Það höfum við gert hægt og rólega með því að taka eitt skref í einu (sjá hugmyndir hér og í bloggfærslunum) – og jafnvel stundum afturábak – allt eftir því hversu langt við höfum verið tilbúin að ganga hverju sinni. En ég get sagt ykkur að þetta er tiltölulega einfalt, ánægjulegt og áreynsluslaust ferðalag ef maður fer bara á sínum hraða og nýtur hvers einasta smáatriðis sem maður nær að breyta. Maður myndi gefast fljótt upp ef krafa væri gerð um að árangur sæist á aðeins einni nóttu.

Þar að auki hefur verið algjörlega ómetanlegt að styðjast við hugmyndafræði „Zero Waste“-lífsstílsins og fá þaðan innblástur og einhvers konar endurstillingu á hugarfar okkar gagnvart neysluvenjum okkar og heimilissorpinu.

Við erum afar meðvituð um að við séum enn í miðju lærdómsferli og margir komnir muuun lengra á þessu sviði. Við hlökkum til að halda áfram að minnka heimilissorpið okkar enn frekar, læra meira og gera betur í dag en í gær.

Að minnka heimilissorpið er sem sagt ákveðin þróun og þá sögu langaði okkur til að birta á þessari heimasíðu og á fésbókarsíðunni „Minna sorp; lærdómsferli fjölslskyldu” – ef einhver skyldi hafa áhuga á og/eða væri tilbúin/n til að veita okkur ráð, deila reynslu o.s.frv. Í þessum efnum lærum við öll svo mikið af hverju öðru; að minnka sorpið er samstarfsverkefni. 🙂

Kærar þakkir fyrir innlitið, ekki hika við að setja hér inn línu og síðast en ekki síst:

Eigið frábærar neyslu- og sorpstundir 🙂

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s