Nýlega fórum við yfir barnaleikföng heimilisins og grisjuðum hressilega. Nokkur rafhlöðuknúin leikföng fengu reisupassann eftir dygga þjónustu í gegnum árin; sum þeirra fóru í nytjagám en flestum var komið fyrir í raftækagámnum í endurvinnslunni.
Meðal þess sem fór í gegnum kollinn á mér við þessar aðgerðir var eftirfarandi:
1) Við eigum þessi leikföng og höfum ákveðið að losa okkur við þau. Við berum því ábyrgð á að þau fari í réttan farveg þegar við höfum ekki lengur not fyrir þau – annað hvort með endurnýtingu eða endurvinnslu. Það er s.s. ekki í boði að fleygja þeim í almenna, óflokkaða sorpið (og það með rafhlöðunum) – þó það hefði auðvitað verið þægilegasta lausnin.😴
2) Í „eigendaábyrgðinni“ felst einnig að taka rafhlöðurnar úr raftækjunum fyrir förgun og koma þeim fyrir hjá spilliefnunum á endurvinnslustöðinni. Rafhlöður sem enda á röngum stöðum í endurvinnslunni geta valdið miklu tjóni – líka fyrir umhverfið ef þær enda í urðun með almennu sorpi.
3) Rafhlöðuknúin leikföng eru ekki sérlega sjálfbær ef það þarf að kaupa með reglulegu millibili rafhlöður (sem flokkast sem spilliefni!) – með tilheyrandi kostnaði – svo hægt sé að nota leikföngin. Svo tókum við eftir því að sumar rafhlöðurnar voru farnar að leka; ekki beint kræsilegur efniviður í barnaleikina … Þetta var smá „eye-opener“ fyrir okkur; við ætlum að reyna að forðast rafhlöðuknúin leikföng í framtíðinni – nóg er nú úrvalið af öðrum spennandi leikföngum!
4) Ef kaupa þarf rafhlöður á annað borð, þá er best að velja fjölnota hleðslurafhlöður. 🤖