Það geta allir minnkað heimilissorpið sitt!
Febrúarsorptölur liggja nú fyrir. Nú eru akkúrat tvö ár síðan við vigtuðum sorpið okkar í fyrsta skipti. Það er því áhugavert að líta aðeins til baka og gera smá samanburð.
– Óendurvinnanlega sorpið okkar nú í febrúar (þ.e. sá hluti sorpsins sem fer í landfyllingu eða brennslu) vóg 140 grömm. Það er mjög gaman að skoða hvaða hlutir rötuðu í þennan ruslflokk (sjá neðri mynd).
– Þegar við vigtuðum sorpið okkar í fyrsta sinn í febrúar 2017 vóg þessi sami flokkur 10,8 kíló og fyllti heilan 35 lítra poka.
– Áður en við hófum sorpævintýrið fylltum við með 2-3 slíka poka á viku, eða 8-12 poka á mánuði!
Hvernig minnkuðum við óendurvinnanlega sorpið?
– Mestu áhrifin hefur auðvitað að:
#1) Kaupa minna – t.d. með því að nýta betur það sem við eigum (mat, föt og hluti) og ekki kaupa óþarfa, og
#2) Kaupa vistvænt – kaupa notað, úr vistvænum efnum, án umbúða, fá lánað/leigt o.s.frv.
– Það munaði líka mjög miklu fyrir okkur þegar við byrjuðum að flokka lífræna úrganginn frá, í febrúar 2017.
– Svo gerðust tveir frábærir hlutir á sl. ári sem hjálpuðu mikið til: Við gátum loksins farið með Tetra pak fernur í endurvinnslu (var ekki í boði áður hér í Sviss, nú vigtum við þær með pappanum) OG litli snúðurinn okkar fór að nota fjölnota bleiur á næturnar í stað einnota.

Rýnt í óendurvinnanlegt febrúarsorp