Miðjubarnið fagnaði 5 ára afmæli sínu í gær og af því tilefni var haldin 17 barna þrusuafmælisveisla. Við reyndum eins og við gátum að takmarka allt sorp við undirbúning veislunnar. Niðurstöðurnar má sjá á fyrstu myndinni. Var að átta mig á því að eina plastið á myndinni er tappinn á sírópsflöskunni!
Hvað gerðum við?
– Við blönduðum kokteildjús með klaka (svaka sport!) og komum þannig í veg fyrir mikið magn af drykkjarumbúðum.
– Við endurnýttum gamalt skraut, þ.e. veifur, kerti og pakkabönd til að hengja upp blöðrur.
– Við keyptum eins mikið umbúðalaust og mögulegt var.
– Við notuðum ekkert einnota dót – nema reyndar blöðrur (ekki hægt að halda afmæli án þess að hafa blöðrur).
– Þakkar- og kveðjugjöf til gesta: 1 stk gerberublóm og nammipoki föndraður úr gömlum gjafapappír (sjá mynd 3).
Á fjórðu myndinni sést síðan sorpið sem myndaðist vegna gjafanna. Við bentum sumum foreldrum á að við værum mikið fyrir það að takmarka ruslið okkar, veit ekki alveg hversu vel þau skilaboð skiluðu sér… Maður þarf greinilega að kveða fastara að orði í þessu sambandi en ég viðurkenni að ég á í smá basli með þetta. Sjálfsagt kemur það með æfingunni; í næsta afmæli reynum við að ganga lengra.