Í gærkvöldi tókum við Ömmi þátt í 10 km hlaupi í hinu árlega Genfar-mararþoni og það var auðvitað geggjað gaman. Risastórir hlaupaviðburðir sem þessir geta verið þvílík ruslaskrímsli og þess vegna var svo æðislegt að verða vitni af góðri viðleitni skipuleggjanda til að takmarka sorpið eða amk hafa það umhverfisvænna en ella:
– Vatn var borið fram í PAPPAglösum bæði á hlaupaleiðinni og við markið. Sjálfboðaliðar helltu í glösin úr vatnskönnum en könnurnar fylltu þeir með því að sprauta úr slöngum sem tengdar voru færanlegum vatnstönkum.
– Aðgengi að vatnskrönum fyrir þátttakendur á viðburðasvæði var mjög gott til að fylla á glös og brúsa.
– Bjór var seldur í plastglösum sem hægt var að skila að notkun lokinni og e.k. skilagjald af glösunum var þá endurgreitt.
Við sem þátttakendur reyndum líka að afþakka sem mest af því dóti sem átti að gefa okkur vegna hlaupsins, þótt okkur hafi nú ekki tekist fullkomlega til – betur má ef duga skal. Á fyrstu myndinni sést það dót sem við þáðum vegna hlaupsins.
– Við afþökkuðum medalíur og allar prufur, penna, kynningarefni oþh sem gefa átti þátttakendum í markaðslegum tilgangi.
– Við ákváðum í þetta sinn að þiggja sitthvorn bolinn og tvö svitabönd. Getum sleppt því á næsta ári.
– Við tókum bara við einum geymslupoka í stað tveggja (pokarnir eru fyrir persónulega muni sem settir eru í geymslu hjá mótshöldurum á meðan hlaupi stendur). Pokann getum við notað í hlaupinu á næsta ári.
Í raun og veru ættu því hlaupanúmerin og flögurnar sem mæla tímann algjörlega að duga okkur í hlaupinu að ári liðnu (innan græna hringsins á fyrstu myndinni) – restin er í raun óþarfi. Markmið fyrir næsta hlaup er sem sagt komið í hús!