Um daginn fór Þorgerður Erla í gegnum „Alt-muligt“-dótakassann sinn. Í hann hefur safnast alls konar smádót í gegnum árin. Sumt er mjög sniðugt og skemmtilegt, annað eiginlega algjört drasl og óþarfi.
Held að svona kassi sé til í hverju einasta barnaherbergi. Á mörgum heimilum eru líka til sambærilegar „Draslskúffur“ eða „Draslskápar“ þar sem hlutir af ýmsu tagi safnast upp sem eiga ekki tryggan samastað á heimilinu af einhverjum ástæðum.
Svona yfirferð á „Alt-muligt“-dótakassanum eða „Draslskúffunni“ fær mann til að hugsa og vera meðvitaðri um að draga ekki hvaða hluti sem er inn á heimilið. Með því að vera selektífari og meira vakandi í innkaupum og afþakka gjafir sem gefnar eru á förnum vegi í auglýsingaskyni er auðvelt að koma í veg fyrir óþarfa-dóta-drasls-uppsöfnun og almenna sóun á orku, auðlindum og peningum.
Annars rakst ég á þetta verk á seinni myndinni í Hjálpræðishernum sl. föstudag. Þar hafði e-r komið sér upp striga á ramma og límt á hann gríðarlegan fjölda smáhluta af ýmsum gerðum. Útkoman er áhugavert og litríkt endurnýtingarlistaverk!