Aukin lífsgæði, hvað sem þau kosta – eða minna sorp, á kostnað lífsgæða?…

… já, hversu langt vill maður ganga – á hvorn veginn sem er? Leiðir minna sorp alltaf til skertra lífsgæða? Leiða aukin lífsgæði alltaf til meira sorps? Ég hef alloft staðið frammi fyrir slíkum vangaveltum í þessu sorp-lærdómsferli öllu. Svörin eru ekki alltaf augljós.

Þegar við byrjuðum að vinna í að minnka heimilissorpið fannst mér til dæmis óhugsandi að láta Nespresso kaffihylkjavélina fara. Já, mér fannst algjörlega lífsnauðsynlegt að geta fengið kaffið mitt 30 sekúndum eftir að ég fann fyrir kaffiþorstanum. En fljótlega voru einnota plastkaffihylkin þó farin að fara í taugarnar á mér út af sorpinu sem þau skópu. Ég ákvað að prófa nýjar leiðir án þess þó að skerða þessi „gott-kaffi-á-30-sekúndum-lífsgæði”.

Prófaði að kaupa fjölnota hylki sem hægt er að fylla á. Fannst gæðin vera alveg glötuð og sneri fljótt baki við þeirri lausn. Prófaði að kaupa einnota hylki úr náttúrulegum efnum sem eiga að leysast upp á nokkuð stuttum tíma. Eftir stóð samt að hylkin fóru í almenna sorpið, sem er brennt hér í Sviss en fer ekki landfyllingu. Þannig að umhverfisvænu eiginleikar þeirra nutu sín ekki að fullu – fyrir utan það að þau voru eftir sem áður pökkuð inn í plast og pappír. Prófaði að kaupa einnota hylki framleidd af Nespresso. Þau eru úr áli og Nespresso tekur við þeim í endurvinnslu. Framleiðsla hylkjanna og endurvinnsla eru hins vegar orkufrek og í þau þarf hráefni sem halda ekki 100% gæðum sínum við endurvinnslu. Auk þess var ljóst að notkun á þessum hylkjum væri ekki í takti við markmið okkar um að minnka ALLT sorp – þar með talið endurvinnanlegt sorp.

Já, ég fann að ég var aldrei fullkomlega sátt við þær lausnir sem ég reyndi – og viti menn, sá dagur rann upp í ágústmánuði þegar mér fannst ég vera gjörsamlega tilbúin að segja skilið við þessa blessuðu kaffivél. Mér fannst allt í einu þessi 30-sek-lífsgæði vera of dýru verði keypt m.t.t. umhverfisins og naut þeirra ekki sem skyldi. Glöð í bragði dró ég því fram gömlu pressukönnuna mína og teketilinn, keypti kaffibaunir í áfyllingu og hef ekki snúið til baka. Nú finnst mér lífsgæði fólgin í því að gefa mér tíma í uppáhellinginn, finna indælan kaffiilminn og njóta eftirvæntingarinnar til að drekka rjúkandi heitt, gott og umbúðalaust kaffi. Annar valkostur hefði verið fólginn í að leggja kaffibollann á hilluna … en nei, þeim lífsgæðum mun ég seint fórna…

Lærdómurinn sem ég hef dregið af þessari litlu reynslusögu er eftirfarandi:

  • Hver og einn finnur hjá sjálfum sér hve langt hann vill ganga til að uppfylla þarfir sínar og langanir hverju sinni.
  • Maður hefur iðulega val á milli nokkurra lausna sem hafa sína ólíku kosti og galla – og þá er bara spurning út frá hvaða forsendum og viðhorfum valið er framkvæmt. Stundum þarf að prófa sig áfram.
  • Ein og sama lausnin getur vel falið í sér aukin eða öðruvísi lífsgæði OG minna sorp. Þetta þarf ekki að vera gagnkvæmt útilokandi
Þessi færsla var birt undir Matarinnkaup og eldhús, Sorppælingar. Bókamerkja beinan tengil.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s