Meistaramánuður – Minna heimilissorp – Niðurstöður
Við fjölskyldan tókum virkan þátt í Meistaramánuðinum þetta árið. Það staðfestist hér með að markmiðunum var náð…úje!! -sbr. mynd.
NB – 90% af óendurvinnanlega sorpinu í pokanum eru einnota bleiur. Ég veit, hræðilegt – samt náðum við að takmarka okkur við að nota að hámarki tvær einnota bleiur á dag, fyrir utan það að litli guttinn varð koppavanur undir lok tímabilsins.
Þetta fáránlega skemmtilega verkefni okkar snerist sem sagt ekki bara um að flokka betur – heldur miklu frekar að MINNKA ALLT heimilissorp, bæði það sem má flokka/endurnýta og það sem fer í landfyllingu/brennslu.
Það var gert fyrst og fremst með smá breytingum á kaup- og neytendahegðun okkar – því allt sem keypt er verður jú að einhvers konar úrgangi/sorpi, fyrr eða síðar.
Það var ótrúlega hvetjandi að fá að tjá sig um ferlið á FB – og fá um leið frábærar tillögur, ráð og pepp frá vinum og vandamönnum. Ómetanlegt. Ástarþakkir fyrir allan þann stuðning sem við höfum fengið.
Eins og ég hef áður sagt, þá erum við enn í miðju lærdómsferli varðandi þessi neyslu- og sorpmál og margir komnir muuun lengra á þessu sviði. Við hlökkum til að halda áfram að minnka ALLT heimilissorp enn frekar, læra meira og gera betur í dag en í gær. Næst ætlum við til dæmis að taka hreingerningarvörurnar okkar fyrir – sjáum til hvernig það fer…
Vissulega koma stundir þar sem maður missir móðinn; hvað skiptir máli hvort við, fimm manna heimili, dropi í hafinu, reyni sitt besta til að minnka sitt sorp…?!? Þá finnst mér oft gott að hugsa til ,,inspirerandi” orða sem Hákon Gunnarsson, lærifaðir minn og vinur, benti mér einu sinni á, þ.e. orða Immanuel Kants: ,,Live your life as though your every act were to become a universal law.” Inntak umræddra orða má kannski túlka á þessa leið: ,,Við hverja ákvarðanatöku skaltu íhuga: Hvað myndi gerast ef allir gerðu eins og ég.”
Já, hvað ef enginn myndi reyna að bæta sín neyslu- og sorpmál? En hvað ef allir reyndu sitt besta?… 🙂
Eigið frábærar neyslu- og sorpstundir, kæru vinir